Brr það er svo kalt. Ég sit hérna í lopapeysunni og ullarsokkum (engin komment á það Jóhannes) með lyktina af Bæjonskinkunni sem er í kvöldmatinn í nefinu. Lyktin minnir mig á jólin því að eins og þeir vita sem þekkja mína fjölskyldu þá er alltaf sænsk jólaskinka á jóladag hérna heima, ásamt hangikjötinu, síldarsalatinu og rjómaröndinni og karamellusósunni. Talandi um jólin finnst mér Hagkaupbúðirnar sorglegar að vera búnar að setja upp jólaskraut. Þó að það sé kannski ekki mikið þá sá ég jólatré og greniskreytingar inni í búðinni í Kringlunni í gær og það finnst mér mjög slakt. Ég kveikti reyndar á einni seríunni í herberginu mínu í dag, þessari rauðu við gluggann, en ekki halda að ég hafi farið að róta niður í kassa og hengt hana upp. Nei, ástæðan fyrir þessu er bara sú að tvær af jólaseríunum mínum síðan í fyrra voru aldrei teknar niður og eru þess vegna búnar að vera þarna síðan í byrjun nóvember 2003. Í dag fannst mér hins vegar svo dimmt að það var ágætt tilefni til að stinga allaveganna annari í samband. En ég er heldur ekki Hagkaupsbúðin í Kringlunni.
Er í vetrarfrí núna fram á þriðjudag... eða reyndar ekki í dag því að það er sunnudagur en á morgunn og var á föstudaginn. Ég hef verið að reyna að ná upp svefni og það hefur gengið frekar vel, fer ekki alltof seint að sofa og sef fram á dag. Mmmm. Fríið er búið að vera ágætt fyrir utan fimmtudaginn. Það verður ekkert rætt og þeir sem eitthvað vita um málið eru beðnir um að hafa sig hæga. Vil bara koma á framfæri þakklæti við eina manneskju sem ég efast þó um að lesi þetta hérna. Þú veist (líklegast) hver þú ert.
En nóg um það, PRODIGY var á föstudaginn og mikið rosalega var gaman (allt fyrir Kötlu)! Þeir tóku öll mín uppáhaldslög sem ég var afar sátt með nema No Good hefði mátt koma. Hitti fullt af skemmtilegu fólki en hvað var í gangi með týpurnar þarna? Nú vil ég ekki hljóma eins og eitthvað hardcore feministatröll en hvert er sjálfsvirðing stelpna í dag farin? Aftur og aftur og aftur gekk ég framhjá stelpum sem voru gjörsamlega ekki í neinu. Þær voru í pilsum sem náðu rétt niður fyrir rasskinnarnar (það var mjög tæpt á köflum!), margar hverjar ekkert að hafa fyrir því að fara í sokkabuxur heldur. Síðan voru þær í annað hvort magabolum eða bolum sem voru einhver smá efnisbútur að framan sem var bundinn með einu mjóu bandi að aftan. Hins vegar var ekkert verið að spara málninguna eða háu hælana. Þetta var orðið fáránlegt á köflum. Þetta voru líka mest allt stelpur í 8. og 9. bekk eða yngri. Ég læt oftast svona ekki trufla mig mikið og flissa kannski bara innan í mér en þetta var komið út í öfgar, sérstaklega þegar ég skrapp með stelpunum á klósettið og voru þá ekki nokkrar stelpurnar að dunda sér að slétta á sér hárið með sléttujárni. Hvaða grín er það? Það kemur manni nú kannski ekkert á óvart að það sé verið að púðra sig eitthvað á klósettinu en hversu umhugað þarf þér að vera um útlitið til að þú mætir með sléttujárn á tónleika? Það er nú ekki heldur eins og maður sér mikið að reyna að húkka sér kall á svona tónleikum.
Rólegt kvöld í gær, nammi, gos og vídjó frá Myndbandaleigu Æsu og Jóhannesar (flytur bráðum í Hafnarfjörðinn, hver fer að verða síðastur til þess að hlaupa út á Víðimel og taka eina góða spólu). Er að hlusta á Beach Boys núna, með Pepsi Max í glasi og reyni að skrifa eitthvað í Kaldaljós-ritgerðinni minni en það gengur hægt. Á að skila bæði henni og ritgerð um Marco Polo í næstu viku en er í staðinn að lesa bókina Stúlka með perlueyrnalokk sem ég á að flytja fyrirlestur um í byrjun nóvember. Ég ætti auðvitað að vera að einbeita mér að hinu tvennu en þessi bók er bara svo illa góð að ég get ekki hætt að lesa hana. Það er orðið langt síðan ég las heila bók, eins og ég var mikill lestrarhestur (hestur?!) þegar ég var yngri. Einu skiptin núna sem ég les eitthvað er fyrir skólan og þegar... ehm... ný Harry Potter bók kemur út. Ég man að ég las einu sinni bút úr viðtali við manninn sem leikstýrði síðustu Harry Potter kvikmyndinni þar sem hann sagði eitthvað á þessa leið: "Það má ekki fresta útgáfu myndarinnar, tíu ára börn um allan heim bíða eftir henni." HA? Hvað er maðurinn að meina? Þegar fyrsta bókin um Harry Potter kom út voru þessi tíu ára börn þriggja ára og varla voru þau mikið að lesa Harry Potter þá og ólust semsagt ekki upp við hann. ÞAU ÞEKKJA HANN EKKI EINS OG ÉG!!!!! Nei ég segi svona en samt sem áður, ég beið mjög spennt eftir síðustu mynd og bók og geri núna líka. Það ætti ekki að vera að stíla svona mikið á að það séu bara yngri krakkar sem lesa þessar bækur, krakkar sem voru varla farin að tala þegar fyrstu bækurnar komu út. Ég las mína fyrstu bók ellefu ára og ég get ekkert hætt að bíða eftir næstu bók bara útaf því að ég er farin að nálgast sautján ára (!!!).
Búin að borða Bæjonskinkuna... hún var góð! Eins og annað sem er eldað hér á bæ. Mamma, þú ert idolið mitt.
Gullkorn dagsins:
Begga: "Hæ þetta er vinur minn, hann er hommi!
- Blessaður hommi!"
Mamma: "Svona fína vél áttum við einu sinni. Síðan henti pabbi þinn henni."
Inni: Harry Potter, bækur, kanelsnúðarnir hans bróður míns og frænku, fólk
Úti: Textarnir hjá Beach Boys... ekki misskilja mig, þeir eru æðislegir en það er samt hægt að semja lög um eitthvað annað en brimbretti og stelpur