Síðasta ástin fyrir pólskiptin

sunnudagur, janúar 30, 2005

Í gær var ég að kynna uppi í Árbæ. Þá stend ég bakvið borð og brosi rosalega mikið á meðan ég segi fólki að ég þessum ávaxtasafa sé enginn viðbættur sykur og þeir séu í rauninni ekkert nema pressaðir ávextir. Á þessum klukkutímum fór ég að spá í fólki. Mér finnst svo gaman að flokkum svo ég ætla að koma með nokkra flokka sem voru áberandi í Árbænum.

1. Fólkið sem lét börnin sín smakka fyrir sig og túlkaði síðan allt sem þau sögðu (þau voru oftast ekki eldri en þriggja ára) sem eitthvað neikvætt.
Dæmi:
Mamman: "Er þetta gott, Sara?"
Sara: "Mmjkloooongntt"
Mamman: "Finnst þér þetta vont, já?"
Sara: Tuuungklomoni
Mamman: "Henni finnst þetta vont."

2. Fólkið sem segir manni allt um líf sitt.
Dæmi:
"Já, þetta er nú sniðugt! Ég er einmitt að fá strákana mína tvo til mín í kvöld, nei þeir eru dóttursynir mínir, ekki mínir eigin synir hahaha. Ég vil endilega vera góð við þá, ég sé þá svo sjaldan skilurðu, þeir búa nefninlega í útlöndum með foreldrum sínum. Mamma þeirra, það er dóttir mín, hún flutti til Bandaríkjana til að fara í háskóla þar og læra lögfræði. Já, hún Katla mín hefur alltaf verið svo gáfuð, enda er pabbi hennar líka mikill gáfumaður, hann er einmitt skurðlæknir. En hún hefur útlitið frá mér, jájájá, nei ég segi svona. Langamma hennar var hún valin fallegasta kona Húnavatnssýslu um aldamótin 1900, já það var mikill sómi fyrir fjölskylduna. Ég hef samt aldrei skilið af hverju hún skírði yngri strákin Húna, það er nú ekkert mjög fallegt nafn. Sá eldri heitir hins vegar Magnús, eins og pabbi hans, það er nú gott og traust nafn."

3. Fólkið sem finnst gaman að vera dónalegt.
Dæmi:
"Nei, takk ég vil ekki smakka. Þetta er örugglega ógeðslegt."

4. Fólkið sem afsakar sig fyrir að kaupa ekkert.
Dæmi:
"Já mmm, rosalega gott. Ég ætla að bíða aðeins með þetta. Mjög gott samt. Er bara að flýta mér svolítið núna. Kaupa lítið. Þú skilur."

5. Fólkið sem þarf að setja út á allt og vera yfir höfuð mjög leiðinlegt.
Dæmi:
"Þú setur svo mikið í glösin, settu minna. Ertu ekki alveg örugglega með hanska? Jú, ókei. Þetta ætti ekki að vera gult á litinn. Vonandi ertu með slökkt á símanum þínum á meðan þú ert að vinna!"

6. Fólkið sem spyr endalausra persónulegra spurninga. Oftast krakkar.
Dæmi:
"Já og ert þú ekki úr Árbænum? Áttu einhver yngri systkini? Færðu vel borgað? Áttu kærasta? Í hvaða skóla ertu? Finnst þér þetta sjálfri gott?"

Þetta eru allt saman real-life dæmi síðan í gær en samt sem áður var ekki slæmt. Var komin með verki í nokkra vöðva eftir endalaust bros en annars frekar góð.
Það sem kom mér samt mest á óvart var hversu margir lyktuðu eins og hestur. Haha gott grín Diljá, eins og einhver lykti eins og hestur. Nei. Ekki grín. Um það bil þriðja hver manneskja lyktaði eins og hross. Namminamm.

Tónlist:

Chris de Burgh - Lady in red
Joni Mitchell - Case of you
Billy Joel - For the longest time
Scissor Sisters - Can't come quickly


Diljá og Melkorka gesprochen an 19:56

♣♣♣♣

miðvikudagur, janúar 26, 2005
Strætólúðar

Í svona myndum, bara týpískum myndum þá er alltaf einhver lúða, aumingja eða nörda týpa. Þegar manneskjan kemur og er að labba um t.d. gangana í skólanum kemur eitthvað sorglegt lag (Joni Mitchell?) og oftar en ekki er hitt fólkið á ganginum í tómataslag á meðan. Þegar lagið er komið í viðlagið fær lúðinn óvart tómat í höfuðið og allir hinir verða rosalega vandræðalegir en eru samt flissandi.
Næsta sena er þegar þessi sama manneskja fer í strætó. Hún er að labba svona ein með bækurnar sínar í fanginu eins og Sandy í Grease og hárið á henni er allt blautt og úfið. Allir vinsælu krakkarnir sitja í Levis buxunum sínum og með hliðartöskurnar sem kostuðu rosalega mikið en eiga samt að vera old-school og töff. Allir sem labba á móti henni í strætó rekast utan í hana og á endanum missir hún allar bækurnar.
Þegar hún fer út keyrir strætóinn framhjá og beint ofan í poll sem skvettist allur á hana.

Svona atriði eru í mörgum myndum svo að ætli lúðar séu eitthvað óheppnari en annað fólk? Það skvettist aldrei úr polli yfir fyrirliðann í fótboltaliðinu fyrr en kannski í endann þegar hann er búinn að vera vondur og nördatýpan er orðin aðalklappstýra. Ég ætla að gera kvikmynd þar sem vinsæla manneskjan fær tómat í hausinn og nær að halda kúlinu.

Ökuskólinn kallar núna, hægur dauði bíður mín en hvað gerir maður ekki fyrir lookið?


Diljá og Melkorka gesprochen an 16:52

♣♣♣♣

sunnudagur, janúar 23, 2005

Hlutir sem gleðja mig núna:

Náttbuxur
Pizza síðan á föstudaginn
Brauðstangir síðan á föstudaginn
Kók síðan á föstudaginn
Romy And Michelle's High School Reunion á vídjó, ekki síðan á föstudaginn
Nýja batteríið í símanum mínum
HM í handbolta
Sunnudagar

Hlutir sem pirra mig núna:

Það vantar batterí í músina mína
Skítugar neglur
Kötturinn minn vakti mig alltof snemma í morgunn
Tannburstinn mínn því ég týni honum alltaf
Sund

Í dag er örugglega gráasti dagur sem hefur sést. Þegar ég horfi út um gluggann er allt grátt, himininn er grár, trén eru grá, snjórinn er grár, húsin eru grá, fuglarnir eru gráir. Samt er ég í ágætu skapi. Áðan mundi ég eftir hitabylgjunni í sumar og því að þá gekk ég um á flip-flops og í hlýrabolum í tvær vikur. Þá fór ég í slæmt skapi en það lagaðist þegar ég mundi eftir geitungunum og köngulónum sem eru ekki á veturna.

Í gær fór ég í mjög hresst partí. Stikkorð: snjór, eldhús, 28.febrúar, kóðun, rauðhærðir, flegnir bolir, kuldi og Dalai Lama. Ekki meira um það.

Msn myndir eru skemmtileg pæling. Einu sinni var ekki hægt að hafa mynd á msn en núna er maður rosalega asnalegur ef maður er ekki með neina mynd. Þessar myndir eru eiginlega búnar að taka við af msn nöfnunum sem lýsing á því hvernig persóna maður er.

Mynd af hljómsveit - sýnir hversu mikil áhugamanneskja um tónlist manneskjan er
Venjuleg sjálfsmynd - sýnir að manneskjan er bæði þroskuð og áhugaverð
Kettlingamynd - sýnir að manneskjan er sæt og góðhjörtuð, hefur mikinn áhuga á réttindum dýra og vill bæta heiminn
Einkahúmors myndir - sýnir að manneskjan er með mjög fáa á contact listanum sínum
Óvenjuleg sjálfsmynd - sýnir að manneskjan er ÝKT FLIPPUÐ
Paramyndir - sýnir að manneskja á kærasta/kærustu og er þess vegna ekki alveg glötuð

Annað er ekki jafn merkilegt.

Samtal:

Mamma: Hvar er klósettburstinn?
Ég: Hann er hérna.
Mamma: Já, komdu með hann niður stigann.
Ég: Grípurðu hann ekki bara?
Mamma: Diljá, ég gríp nú ekki klósettburstann!
Ég: Nei, ég var bara að grínast.

Tónlist:
Tony Orlando & Dawn - Tie a yellow ribbon

Ég hef aldrei getað gleymt þessu lagi eftir að einhver þýddi textann fyrir mig yfir á íslensku. Það var þegar ég kunni ekki ensku.




Diljá og Melkorka gesprochen an 12:38

♣♣♣♣

laugardagur, janúar 15, 2005

Eftir játninguna um offitusjúklingana get ég loksins haldið áfram að blogga. Blogg blogg. Hvað ætli sé íslenska orðið? Skiptir ekki máli, ég myndi aldrei nota það. Allaveganna ekki ef það væri eitthvað eins og rafræn færslubók, þá er blogg betra. Annars er alltaf verið að stytta allt núna niður í eitthvað sem endar á -ó. Rafó? Færsló? Hvað er eiginlega málið með það samt, svona í alvöru. Það eru til -ó styttingar sem allir þekkja eins og strætó, bíló og sígó en svo eru aðrar sem ég get ekki skilið af hverju eru notaðar. En ég nota þær samt sjálf. Stundum. Dæmi:

Sjáðu, ég var í klippó (klippingu)
Kemurðu í mató? (matsöluna)
Nei, förum frekar í maró (Maraþaraborg)
Eru þau kæró? (kærustupar)
Pottó (pottþétt)

Þetta er kannski ekki það slæmt því þetta eru allt allaveganna sæmilega löng orð. Það sem er verst er:

Blessó (bless)
Við erum á Mokkó (Mokka)
Ætlarðu á morfó? (morfís)
Viltu nammó? (nammi)

Til hvers? Asnó (asnalegt).
Einu sinni hugsaði ég með mér hvað það væri nú þægilegt ef maður vissi alltaf hver væri hrifinn af hverjum og hver ekki. Þetta er nú eitt stærsta vandamál mannkyns. Hverja mínútu pínast mörg þúsundir manna um leið og þeir velta fyrir sér hvort hrifning þeirra á einhverjum sérstökum geti verið gagnkvæm. Þess vegna virðist það rosalega góð hugmynd af redda þessu bara einhvernveginn þannig að þetta væri á hreinu. Síðan hugsaði ég meira um það og mér fannst þetta ennþá frábær hugmynd og ákvað að þegar ég yrði forsætisráðherra myndi ég fá þetta sett í lög. Svo hugsaði ég aðeins betur og þá sá ég að þetta var ekkert sniðugt. Það yrðu brotin hjörtu allsstaðar (ljóðrænt). Reyndar líka eitthvað um glöð hjörtu en ég meina, hitt yrði án efa algengara. Það tæki líka alla spennuna úr öllu. Enginn væri að eltast við neinn lengur, enginn væri leynilega hrifinn af neinum, engar 70 rauðar rósir frá xxxxx. Hversu leiðinlegt? Þetta yrðu bara allt svona tjilluð samtöl:

-Hey ég sé að þú ert að fíla mig. Mér hefur nú alltaf fundist þú frekar flott svo myndirðu nenna í bíó?
-Jaaáá kannski, annars er Siggi líka hrifinn af mér og Palli en ég skal hugsa málið.
-Já ég skil, samt ekki of lengi því að ég sá að Magga og Hildur eru líka að spá í mér svo kannski ég bjóði annarri þeirra.
-Nei heyrðu, ætli ég slái ekki bara til. Klukkan átta?
-Segjum það.
-Kúl.

Ég held að fólk hafi bara gaman af að láta pína sig. Þetta væri kannski ágætt stundum en til lengdar væri það örugglega eins og að hafa jólin á hverjum degi. Böll yrðu leiðinleg, allir nógu drukknir til að fíla hvern sem er og það myndi skapast kaós í kringum vinsælustu strákana/stelpurnar. Ég pant fá Atla, nei hann er að fíla mig, hey mig líka, og mig, ég kom fokking fyrst, hættu að troðast feita hóran þín, hvern ert þú að kalla hóru?.
Nei, það væri ekki gaman.

Það yrðu engar skottegundir lengur. Lífið yrði grátt og það myndi alltaf vera rigning. Skottegundir sem myndu líða undir lok:

1) Ég er svo skotin í þér og þú ert besti vinur minn, æi mig langar að deyja.
2) Ég er svo skotin í þér en þú ert þokkalega vinsælasti strákurinn í öllum skólanum og hefur engan áhuga á mér.
3) Ég er svo skotin í þér en ég hef aldrei talað við þig en ég veit hvað þú heitir og skoða alltaf myndina af þér á nfmh.is.
4) Ég er svo skotin í þér en þú ert giftur konu sem hefur ættarnafnið Paradise, býrð í Frakklandi og átt nokkur börn. Svo ertu líka rúmlega fertugur.
5) Ég er svo skotin í þér en ég var með þér á síðasta balli og núna þori ég ekki að segja hæ.
6) Ég er svo skotin í þér en þú átt kærustu.
7) Ég er svo skotin í þér en samkvæmt vinum mínum ertu erkifífl.

Bottom line? Hrifning er að hinu illa og allt sem henni fylgir. Punktur og basta, bannað að breyta.

Gullkorn:

Snorri: Vissuð þið að 1/5 af manneskjum í heiminum eru brunaliðsmenn?

Fróði: Það hafa verið 30 dagar í febrúar. Einu sinni í Svíþjóð.

Ásrún: Maður er handtekinn fyrir að reykja sígarettur í gegnum munninn og nefið á sama tíma. Það hefur gerst, á Íslandi. Vinkona mín sagði mér það. Hún er samt alltaf að ljúga að mér.

Tónlist:

The Killers- Somebody told me
Tori Amos - Love song, Cure cover
Joni Mitchell - Both sides now


Diljá og Melkorka gesprochen an 02:41

♣♣♣♣

sunnudagur, janúar 09, 2005

Símtal:

Ég: Halló.
Elín: HAHAHAHAHAHHAHAHAHA, hæææææææææ!
Ég: Já, hæ
Elín: HAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA
Ég: ...
Elín: HAHAHAHAHA, VEISTU HVAÐ????
Ég: Nei, hvað?
Elín: Ég var að horfa á fréttirnar HAHAHAHA og það var frétt um offitusjúklinga AHAHAHAHAHAHAHAHA.
Ég: Já, þeir geta nú verið fyndnir (nei, ég man ekki hvað ég sagði)
Elín: Og manstu í vorhátíðinni uppi í skóla í maí þegar var HAHAHAHA verið að gefa frospinna?
Ég: Já ég man.
Elín: Og sjónvarpið kom?
Ég: Já, einmitt.
Elín: Já, það var verið að tala um offitu hjá börnum í fréttunum HAHAHAHAHA.
Ég: Já, þessir krakkar.
Elín: HAHAHAHA og þegar var verið að segja það kom svona mynd af okkur tveim að borða frostpinna!!!!
Ég: HA?
Elín: JÁ!!! HAHAHAHAHAHAHAHAHA
Ég: HAHAHAHAHAHAH
Elín: HAHAHAHAHAHAHAHA
Ég: HAHAHAHAHAHAHA
Elín: VERRA! Við erum báðar ógeðslega súrar og ógeðslegar.
Ég: Æææææææææiiii, einu sinni vorum við ljótar (nei ég man það ekki heldur hérna)
Elín: HAHAHAHA
Ég: HAHAHAHA
Elín: Jááájájá, viltu koma á kaffihús í kvöld?
Ég: Nei, ég er að fara í leikhús með ömmu minni.
Elín: Já, ókei. Skemmtu þér vel.
Ég: Takk.
Elín: Bless þá.
Ég: Já blessó.

Ætli RÚV sé að senda okkur eitthvað hint?
"Sjáðu á hlið, hef ég bætt á mig?" (í hvaða mynd?)
Þetta var gott dæmi um notkun á frasanum "Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta". Ákvað samt að hlæja, til að standa undir nafni.
Ég held að ég hafi aldrei skrifað h og a jafn oft í einni færslu. Annað sem er að frétta er að ég get ekki hreyft mig vegna harðsperra (hassperra? harsperra?) og marbletta og er þess vegna tímabundið fötluð. Það er samt satt, ég á erfitt með gang og aðra hreyfingu.


Diljá og Melkorka gesprochen an 23:40

♣♣♣♣

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Ég er búin að ákveða að í staðinn fyrir að blogga með svona hæfilegu bili ætla ég að blogga þegar mig langar til þess. Það gæti gert mig að múltíbloggara því mig langar frekar oft að blogga þótt það sé ekki um neitt sérstakt. En það verður bara svoleiðis.

Í gær var fyrsti skóladagurinn eftir áramót og ég held að ég hafi aldrei í lífi mínu verið jafn þreytt. Ég náði varla að loka munninum á milli geispa (það er svo skrýtið að strax og ég byrja að skrifa um geisa byrja ég að geispa). Geispi er frekar gott orð. Geispi geispi geispi geispi geispi geispi. Kvöldið áður ákvað ég að vera rosalega dugleg og var komin upp í rúm klukkan korter í ellefu. Ég reyndi allt til þess að sofna. Ég náði meira að segja í gömlu Westlife diskana mína (gömul Westlife lög eru veikleiki hjá mér). Sólarhringsviðsnúari.

Strætómenning er undarleg. Í strætó áttu að segja hæ við allt fólkið sem þú þekkir, annars ertu dónalegur. Samt er meira en helmingurinn af þeim alltaf með heyrnatól og svo er maður sjálfur með heyrnatól. Ég hef oft verið að hugsa hvort að það sé dónalegt að segja ekki hæ ef báðar manneskjur eru að hlusta á tónlist. Og ef maður tekur kannski heyrnatólin úr öðru eyranu til að spjalla við einhvern og síðan hefur maður ekkert meira að segja, hvenær er þá í lagi að setja það aftur í eyrað? Það er öðruvísi ef maður setur á pásu á iPodnum/geislaspilaranum því að þá er hægt að vera rosalega lúmskur og setja á play aftur án þess að nokkur takið eftir því. Ef þú setur heyrnatólin í eyrun aftur þá finnst sumum það vera eins og að segja "Þú ert svo hrikalega leiðinleg/ur og nú nenni ég ekki að hlusta á þig lengur." Það sem gerir það líka enn flóknara er að fólk vill fá að hlusta á tónlistina sína og nennir ekki að spjalla en verður samt móðgað ef það er ekki spjallað við það. Þetta er frekar erfitt, ég ætti að þekkja fleiri með bílpróf. Þá kæmu ekki upp svona vandamál. Annars verð ég 17 eftir 53 daga, það verður gaman.

Tónlist:

Franz Ferdinand - Take me out, ákvað að kryfja aðeins textann og uppgötvaði lagið upp á nýtt
Beach Boys - Why do fools fall in love, þessi útgáfa er of flott
Eurythmics - There must be an angel, gott strætólag
Michael Buble - Sway, fær mig til að dansa
Ann Murray - Even though we aint got money, sígilt broslag, allaveganna hjá mér

Móment:

Heimspekikennarinn minn: ÞÚ ÞARNA SEM ERT ALLTAF HLÆJANDI!!!
Ég: Ha?
Heimspekikennarinn minn: Já þú! Ertu hrifin af einhverjum strák?
Ég: Ehummeee, já...
Heimspekikennarinn minn: Myndirðu vera áfram hrifin af honum ef þú vissir að hann dræpi kettlinga sér til skemmtunar?
Ég: Ég... ég veit það ekki. Nei, ég efa það.
Heimspekikennarinn minn: Já, það er einmitt það!
Ég: Mmm..

Annars vantar mig svefn. Ætlaði að ná honum upp um helgina en þetta eyðilagði það:

Helgar


Klukkan


Hvert



Frá Mjódd

12.30

Í Bláfjöll og Skálafell

Samt... langt síðan ég fór á bretti, þetta verður gaman.


Diljá og Melkorka gesprochen an 23:15

♣♣♣♣

sunnudagur, janúar 02, 2005
2004

Ég ætla að sleppa Topp 5 listunum, of langdregið. Mér finnst bloggið mitt vera feitt. Ekki svona feitt eins og gott feitt heldur svona "Oh, ég er svo feit." Ég er að hugsa um að hætta að blogga í alvörunni, mér dettur aldrei neitt í hug almennilegt lengur. Ætla samt að koma með árslista til að vera alvöru bloggari, hann kemur hér:

Lag ársins: Franz Ferdinand – This Fire

Ekki lag ársins: Yellow Note – Naked, drunk and horny

Besta nótt ársins: Seyðisfjörður í sumar með stelpunum, íslenskar sumarnætur eru bestar.

Versta nótt ársins: “Það er risajárnsmiður í rúminu mínu”-nóttin á Krít. Við Melkorka spiluðum Olsen Olsen alla nóttina því við þorðum ekki að fara að sofa.

Besti bloggari: Jón Kristján, þetta var frekar erfitt því ég þekki marga góða bloggara en það er fáránlega gaman að lesa bloggið hans Jóns. Ég las bloggið hans áður en ég vissi hver hann var.

Slappasti bloggari: Gró

Besta aldrei gert áður: Þóst vera þroskaheft og blind til þess að fæla í burt grískan pervert.

Versta aldrei gert áður: Borðað innyflasull, í boði Doktor Sindra og vina hans

Besta nýja uppáhald: Filip iPod

Besti vinur: Nei, kannski ekki.

Besta ákvörðun: MH

Versta ákvörðun: Ónefnt póstkort til ónefndra starfsmanna

Vonbrigði ársins: Að komast ekki á Placebo.

Gleði ársins: Hitabylgjan í ágúst

Besta sjoppan: Fröken Reykjavík og 10-11, Austurstræti

Strætó ársins: Sexan, 07:48 frá Lækjartorgi

Fjölskylduboð ársins: Singstar matarboðið á gamlársdag, að taka I believe in a thing called love tvisvar sinnum og sjá mömmu mína í karókí var of gott.

Besti frasi ársins: “Farðu bara og sofðu hjá beljunum, landsbyggðarlúði.”

Versti frasi ársins: “Reynið að hugsa með eyrunum en ekki rassgatinu.”



Diljá og Melkorka gesprochen an 16:33

♣♣♣♣