Síðasta ástin fyrir pólskiptin

fimmtudagur, október 21, 2004

Ég vara við, þessi færsla er einstaklega tilgangslaus og ég lofa ekki skemmtilegri lesningu:

Ég er að hlusta á einn skemmtilegasta disk sem ég hef heyrt í langan tíma. Leningrad Cowboys - Live in Prowinzz. Þetta er svo illilega hress diskur að ég get ekki ímyndað mér að einhver haldist lengi í vondu skapi ef hann hlustar á hann. Sérstaklega skemmtilegt er Säkkijärven Polkka og útgáfan þeirra af Those were the days. Var einmitt að heyra það lag með Pavarotti, Placido Domingo og Jose Carreras og verð að segja að það er frekar geðveik útgáfa.

Annars er lítið í fréttum nema það að snjórinn er farinn. Hann hélst í um það bil 24 tíma, þá tel ég samt ekki með hálkuna sem var ískyggilega nálægt því að fótbrjóta mig á þriðjudagsmorgninum síðasta. Ég rétt náði að grípa í hliðarspegilinn á einhverjum stjórnmálamannajeppa áður en ég rann á rassgatið... eins og einhverjir kannski muna þá var þetta einmitt morguninn þegar malbik flettist af vegum á Snæfellsnesi vegna vinds. VEGNA VINDS?! Ég hef séð malbik og það er ekki eitthvað sem er líklegt til þess að flettast af í smá golu. Sem hlýtur að þýða að það hafi ekki verið smá gola heldur bölvað rokrassgat og aftakaveður. Og það var það einmitt.
Á vissum tímapunkti (nánar tiltekið klukkan hálf-fimm aðfaranótt þriðjudagsins) var ég í alvöru orðin skíthrædd við veðrið. Þar sem herbergið mitt er, eins og þeir sem hafa komið heim til mín vita, í risinu á húsinu okkar og ég með annan þakgluggann af tveim beint yfir rúminu mínu þá var hávaðinn þannig að ég í rauninni bara beið eftir að glugginn myndi rifna upp. Þá var ég farin að íhuga að læðast niður í herbergi til mömmu og pabba og í barnabarnadótið sem er geymt undir rúminu þeirra og ná í Davíð.

Davíð var uppáhalds bangsinn minn þegar ég var lítil (var - þetta segi ég bara því að ég þori ekki að viðurkenna að ég elska hann ennþá) sem er reyndar asnalegt því að Davíð er alls ekki bangsi heldur ljón. Hann hefði verið án efa verið mér huggun í þessu veðri en ég vildi ekki hætta á að foreldrar mínir myndu vakna við það að ég lægi undir rúminu þeirra og gramsaði í gamla dótinu mínu svo ég varð að vera án hans. Það þýddi að ég lá andvaka í einn og hálfan tíma áður en ég gat sofnað aftur, Davíðs-laus. Sem er slæmt þar sem eitt af því versta sem ég veit er einmitt að vera andvaka. Áður en ég hætti að skrifa um Davíð verð ég samt að segja öllum sem vilja af hverju Davíð heitir Davíð. Þeir sem nenna ekki að lesa það mega byrja að lesa aftur á næstu greinaskilum.

Málið var nefninlega það að pabbi minn kom heim frá útlöndum einhverntímann og eins og foreldrar sem vilja ekki lenda í ónáð gera þá keypti hann gjöf handa mér sem var þetta ljón. Síðan hnippti hann í mig og sagði svona "Hvaaað, ætlarðu ekki að skíra hann Rudolf?" (fyrir þá sem ekki vita þá heitir pabbi minni Rudolf) og ég neitaði því. En þar sem pabbi minn er örugglega mesta hrekkjusvín sem gengur hefur á jörðinni þá hunsaði hann það og byrjaði að kalla ljónið, sem mér var strax farið að þykja vænt um, Rudolf. Ég var mjög tilfinningaríkt barn (ekki frekt, uppstökkt eða pirrað heldur tilfinningaríkt) og varð öskuill og sagði honum að ég ætlaði sko ekki að skíra hann Rudolf heldur Davíð. Ég var frekar lítil þarna en ég var þó alveg með það á hreinu að ef ég ætlaði að feisa pabba minn almennilega þá myndi ég skíra ljónið Davíð. Af hverju? Jú, nefninlega vegna þess að það hefur aldrei farið á milli mála að foreldrar mínir eru ekki mikið fyrir Davíð Oddsson og alveg síðan ég var pínulítil var mér kennt að kalla hann "krullukallinn" (þetta er dagsatt!!!). Þannig að það var tilvalið að skíra ljónið Davíð bara til þess að pirra þau. Og það hefur haldist síðan. Greinaskil? (ég skal sýna þeim sem vilja Davíð í næstu heimsókn hingað á Suðurgötuna).

En nóg um Davíð. Alveg nóg um hann, ég veit ekki alveg af hverju þetta fór svona langt.
Allt gott að frétta svosem, skólinn er elskulegur eins og alltaf og nýi leikurinn okkar Guðrúnar, "Hver er hot í MH?", er tilvalinn leið til þess að stytta langa og þreytandi tíma. Það eru meira að segja reglur.

Verð að viðurkenna að ég er farin að hlakka pínulítið-svo-lítið-að-það-ætti-varla-að-nefna-það til jólanna. Smá. Stalst til þess að hlusta á Please come home for christmas með Bon Jovi og Baby please come home með U2. Og já, þetta eru tvö mismunandi lög. Bara margir sem vilja gjöra svo vel að fá elskurnar sínar heim fyrir jólin.

Það minnir mig á aðra barnasögu af mér. Ég var með foreldrum mínum á leiðinni til Grikklands, einu sinni sem oftar, og við fórum með hollensku flugfélagi því að á þessum tíma var ekki neitt sem hét beint-flug-til-Grikklands-frá-Íslandi. Ég ætlaði að fara á klósettið en flugfreyjurnar voru einmitt að bera fram matinn þá svo flugfreyjan bað mig um að fara seinna. Hún allaveganna sagði eitthvað sem endaði svo á "please". Ég, svona sjö-átta ára pjakkína, spurði mömmu hvað please þýddi nú og hún þýddi það sem að biðja einhvern um að gjöra svo vel. Þar sem "viltu gjöra svo vel" er sjaldað notað nema til að vera strangur hélt ég að flugfreyjan væri að reyna að skamma mig og var í fýlu við hana restina af fluginu. Ef að mamma mín hefði þýtt þetta sem "vinsamlegast" hefðu ég og þessi flugfreyja geta orðið ágætis vinir. Svona eru tungumálaörðuleikar nú sniðugir.

Annars var ég að hugsa, bara núna eiginlega svo það er ekki hægt að segja "ég er búin að vera að hugsa"; af hverju man maður svona einstaka atburði rosalega vel á meðan maður gleymir öðrum. Ég t.d. man ekkert eftir þessu fríi á Grikklandi, hvernig var og hvað gerðist, heldur bara eftir þessu eina atriði í flugvélinni. Eins og minningar úr leikskóla. Ég man ekkert eftir einhverjum jólasveinum sem komu eða kökunni sem ég fékk á þriggja ára afmælinu mínu eða annað sem er í myndaalbúmunum heima. Hins vegar man ég mjög vel eftir því að í hvíldartímanum gat ég aldrei sofnað og ég öfundaði alltaf krakkana sem sofnuðu og fengum svo að láta fóstrurnar halda á sér og faðma sig þegar þær voru að reyna að vekja þau aftur. Og þegar ég sagði vinkonu minni að mér fyndist strákur sem hét Áki (og var þrem árum eldri en ég, hann er nú í Verzló... þetta var líka skóladagheimili fyrir aðeins eldri krakka, ég var ekki tveggja ára og hann fimm ára) svo sætur og hún sagði öllum leikskólanum það og ég var á bömmer í heilan dag. Eða þegar ég og einn besti sandkassavinur minn, Aron (sem er einmitt busi í MH núna!) fundum upp 'psst' kerfið svo að við gætum alltaf vitað hvar hitt væri án þess að við þyrftum að kalla eitthvað. Mikið notað í feluleikjum, nema auðvitað þegar annað okkar 'varann'.

En nóg af bulli, rúmið mitt þarfnast mín og öfugt.

Gullkorn:

Konan sem vinnur á Subway niðri í bæ: "Kærustur eru bara hraðahindranir í átt að stráknum sem maður vill. Maður skrensar bara fast í andlitið á þeim þegar maður keyrir yfir þær." (ekki orðrétt en nálægt því samt)

Annað gullkorn sem ég man ekki hver átti en vil endilega muna, ef manneskjan sér þetta má hún gefa sig fram:

Ég í vælukasti: "Uhuhuhu, ég þoli ekki hvað margir sætir strákar eru minni en ég."
Gullkornasmiður: "Veistu það er allt í lagi. Við erum nefninlega öll jafnstór þegar við erum á hestbaki."


Seinna...


Diljá og Melkorka gesprochen an 22:35

♣♣♣♣

{ Búið&Gert }

ágúst 2004
september 2004
október 2004
nóvember 2004
desember 2004
janúar 2005
febrúar 2005
mars 2005
apríl 2005
ágúst 2005
september 2005
október 2005
nóvember 2005
desember 2005


{ Er að }

lesa; Frú Pigalopp og jólapósturinn
hlusta á: Simon & Garfunkel - America
elska: snjó
hata: ekki snjó
láta mig langa í: hvít jól
forðast: að falla í Lan103


{ Links 2 3 4 }

Arnar Pétursson
Ásrún Magnúsdóttir
Berglind Pétursdóttir
Dagný Ósk Björnsdóttir
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Dr.Sindri Sverrisson
Elías Þórsson
Elín Margrét Rafnsdóttir
Elísabet Anna
Finnur Kári
Fróði Frímann
Gró Einarsdóttir
Halla Þórlaug
Hildur Rudolfsdóttir
Hlynur Ólafsson
Inga Auðbjörg
Íris Saara Karlsdóttir
Jana Maren
Jóhanna Margrét
Jóhannes Rokk
Jón Helgi Hólmgeirsson
Jón Kristján Kristinsson
Júlíana Sól
Katrín Björgvinsdóttir
Katrín Lilja Ólafsdóttir
Melkorka Rut
Mist Hálfdanardóttir
Olga Margrét Cilia
Salóme Rannveig
Sólveig Ragna Jónsdóttir
Stefanía Bjarney
Sunna Þórsdóttir
Tumi Karlsson
Úlfur Artí
Vala Ósk Gylfadóttir
Vilborg Ása Dýradóttir
Þórdís Erla Zoega