Ég hef verið að hugsa um eitt. Hvað veldur því að mér finnst einhver (yfirleitt... eða reyndar alltaf strákur) myndarlegur á meðan t.d. einhver að vinkonum mínum sér ekkert kynþokkafullt við hann? Ég veit að auðvitað hefur verið pælt í þessu aftur og aftur og aftur og aftur en þá finnst mér heldur ekkert að því að ég geri það. Einhvernsstaðar heyrði ég að sumar stelpur, eða konur yfirhöfuð, leituðu að manni sem væri líkur pabba þeirra. Það er pæling. Hingað til hef ég ekki laðast að strákum sem eru líkir pabba mínum í útliti enda er ég ekki beint umkringd skeggjuðum og sköllóttum strákum sem eru alltaf berir að ofan. Hins vegar er pabbi minn skuggalega nálægt tveim metrum á hæð og hef ég alltaf verið aðeins meira fyrir hávaxna menn en lágvaxna. Aðeins meira. Pabbi minn elskar líka að segja brandara (sérstaklega kaldhæðna og lélega) og er einstaklega hrekkjóttur. Þetta einmitt fíla ég hjá strákum. Það gæti hins vegar líka verið vegna þess að ég er alin upp af honum (ásamt mömmu auðvitað en við erum ekki að ræða um hana einmitt núna) og er þess vegna sjálf sek um kaldhæðna og lélega brandara og prakkarastrik.
Þar kemur það hvort maður laðist að einhverjum sem er líkur manni sjálfum. Örugglega að einhverju marki, kannski sérstaklega þegar kemur að kostunum. Mér t.d. gengur vel í skóla og fæ oftast góðar einkunnir og er þess vegna ekki beint að leita að einhverjum sem er slakur í námi. Ég hef líka mikinn áhuga á tónlist og finnst það kostur þegar strákur hefur það líka. Sérstaklega ef að smekkurinn hans er jafn góður og minn smekkur, sem er náttúrulega frábær. Svo er það hins vegar annað með gallana. Ég er, eins og flestir mínir vinir vita, hræðilega nísk á eiginlega allt en þó sérstaklega peninga og allt matarkyns. Þess vegna finnst mér það kostur þegar strákur er örlátur á eiginlega allt en þó sérstaklega peninga og allt matarkyns. Hljómar illa en mjög satt. Samt er þetta ekki algilt þar sem mér finnst ágætt þegar strákar eru nískir á meðan þeir eru það ekki við mig. Ég? Sjálfmiðuð? Nei varla.
Svo, án þess að ætla að vera með einhverja klisju, þá skiptir persónuleiki auðvitað máli. Hugsum okkur einhvern góðan fola sem mér finnst hræðilega leiðinlegur á meðan vinkonu minni finnst hann svo fyndinn og frábær. Þá kveikir hann kannski í henni en alls ekki mér. Svona lagað er náttúrulega alltaf að gerast. Og allir vita að sætur strákur (eða stelpa, bara ekki í mínu tilfelli) sem er fífl verður langoftast ljótur og ekki jafn sætur strákur sem er æðislegur verður langoftast sætur. Það meikar auðvitað sens því að hugurinn er kannski alltaf að hugsa um að finna tilvonandi lífstíðarmaka, þó að það sé kannski ekki alltaf markmiðið hjá manni sjálfum, og maður vill náttúrulega eyða restinni af lífinu með einhverjum hressum gaur frekar en einhverju fífli. Svona er þetta nú sniðugt.
Ég var að horfa á sjónvarpið í gær, annan uppáhaldsþáttinn okkar mömmu, Scrubs. Á undan voru svo auglýsingar og ég sem var að horfa út í loftið og bíða eftir mömmu fór í auglýsingaleikinn við sjálfa mig. Það kannast örugglega flestir við þennan leik er það ekki? Það kemur auglýsing og sá sem er fyrstur til að átta sig á því hvað er verið að auglýsa vinnur. Jæja, eftir nokkrar Ariel Sensitive (“Milt… nema á bletti”) og Pussi auglýsingar kom auglýsing með hvítum ketti. Hann var ekki að gera neitt nema hoppa um á einhverjum hvítum bakgrunni. Hann gerði þetta í svolítinn tíma og hoppaði svo upp í rauðan sófa og velti sér eitthvað um þar í nokkra stund. “Kattamatur” hugsaði ég náttúrulega með sjálfri mér. Nei. Gerfineglur.
Gerfineglur minna mig annars á það að ég var á ræðukeppni uppi í Verzló í gær þar sem mitt lið, MH, var að keppa við Verzló. Ég sem hef mjög gaman af svona löguðu skemmti mér auðvitað konunglega þó að umræðuefnið hafi verið frekar slappt og frumælandinn frá Verzló (sem er alltaf í strætó á morgnanna) hafi verið svo afspyrnu leiðinlegur að mínu mati. Stelpan þeirra er líka mjög spes. Orðum það svoleiðis að ég myndi ekki vilja sofa hjá henni. Hún er örugglega þessi masó týpa (tileinkað ykkur stelpur, þið vitið hverjar þið eruð). Á milli ræða var skipst á mikilvægum skilaboðum í gegnum Fróða. Dæmi: “Vá hvað liðið okkar er hot” “Hvaða snargeðveika gella er þetta?” “Hver er þetta með húfuna? Hann minnir mig á strákinn sem lék í Almost Famous. Samt ekki þegar hann lék í þeirr mynd heldur þegar hann lék strákinn sem var með krabbamein í Bráðavaktinni.” “Já, ég sá ekki þann þátt” “Ég er svo svöng” ……………………………. “Hey, tjékkaðu beibin í okkar liði”
Mynd þessar færslu er af playlistanum mínum. Fyrir sumum er það kannski ekki merkilegt en fyrir mér geta playlistar verið mikið einkamál. Stundum koma ýmis vandræðaleg leyndarmál upp á yfirborðið þegar maður skoðar playlistana hjá öðru fólki. Kannski þekkirðu einhverja manneskju sem þér finnst mjög töff. Svo skoðarðu hvað þessi manneskja er að hlusta á og þá sérðu All Saints, Boyzone og Westlife allt í einu. Ég reyni ekki einu sinni að afsaka mig, ég elskaði Westlife alveg þangað til fyrir bara svona tveim árum. Ég á þrjá Westlife diska. Enn vandræðalegra, ég á Five
Greatest Hits diskinn! Og hann er ekki niðri í kassa með N Sync, Backstreet Boys og Avril Lavigne diskunum mínum. Nei, ef einhver fer inn í herbergið mitt og kíkir á geisladiskasafnið mitt þá getur hann fundið Five safndiskinn þar. Einnig þrjá Lands og sona diska, Skítamóral, A*teens, XXX Rottweiler, Shaniu Twain, A1 og síðast en ekki síst; O-Town. Já, ég á mér skítuga fortíð.
Myndin sjálf kom ekki nógu vel út ef ég setti hana beint inn í færsluna þar sem hún var lítil og varla hægt að sjá neitt. Þess vegna ætla ég frekar að línka á hana
hérna.
Verð að setja inn lag dagsins sem er samt líka á playlistanum. Ég bara get ekki sleppt því að nefna þetta lag sérstaklega því það er of frábært. Þetta er lagið ‘Alone again or’ með hljómsveitinni Love. Já, það er til hljómsveit sem heitir Love og hún er meira að segja góð.
Seinna (stolið)
Yeah, said it's all right
I won't forget
All the times I've waited patiently for you
And you'll do just what you choose to do
And I will be alone again tonight my dear
Yeah, I heard a funny thing
Somebody said to me
You know that I could be in love with almost everyone
I think that people are
The greatest fun
And I will be alone again tonight my dear