Snjórinn er að fara. Núna er bara ógeðslegt slapp úti og blautur snjór sem er einmitt tilvalinn í snjóbolta. Það gæti verið gaman ef ég hefði ekki hætt í handbolta fyrir tveim árum og lendi alltaf í því að vera skotin niður sjálf.
Eins leiðinlegur og föstudagurinn síðasti var þá var restin af helginni geðveik. Reyndar varð massívt StarWars-Pönnuköku-Ostapopps-Skikkju-beil á laugardeginum en í staðinn skelltu ég, Elín og Sól okkur í Kolaportið. Eins og allir alvöru kolaportarar fengum við okkur kókosbollu og kók auk þess sem þeir villtustu fengu sér marengsköku líka. Ég rifjaði líka upp þegar ég stal í Kolaportinu og er ennþá með samviskubit. Ég hef örugglega ekki verið eldri en sex ára þegar mamma mín vildi ekki leyfa mér að fá svona pakka sem var búið að pakka inn (svo maður þar af leiðandi vissi ekki hvað var í honum) svo ég stakk honum í vasann. Mér líður ennþá illa.
Um kvöldið fór ég svo ásamt Melkorku í partí hjá Þórdísi þar sem sex ára bróðir hennar hljóp kolbrjálaður út um allt hús þangað til við rotuðum hann og læstum hann inni í herberginu hennar Þórdísar. Þetta partí var samt eitt það undarlegasta sem ég hef farið í, dæmi um það eru að í kringum hálf-eitt ákváðu Zakki og Tumi að nú væri góður tími til að baka pönnukökur þannig að einhver var sendur á www.uppskriftir.is til að prenta út pönnukökuuppskrift. Síðan byrjuðu þeir að steikja ofan í liðið og þurfti að vísa fólki frá vegna vinsælda. Reyndar var ekki hægt að reka Guðrúnu Stellu í burtu frá pönnukökudisknum sem gerði það að verkum að aðrir fengu lítið. En góð hugmynd. Eftir það fóru einhverjir í NBA í Playstation og öskrin "HVER ER ÉG?" og "HVERNIG Á MAÐUR AÐ SKJÓTA?" ómuðu yfir allt Seltjarnarnes. Aðrir skemmtu sér á msn, dönsuðu við jólalög eða lágu inni í rúmi á trúnó. Ég ákvað hins vegar bara að labba á milli og fá eitthvað af öllu og það endaði mjög vel. Labbaði svo með Melkorku aftur heim í snjó og kulda.
Á sunnudegium ákvað ég að gera ekkert nema vera í náttfötunum. Þegar klukkan var orðin tvö mundi ég að ég átti eftir að klára nokkur íslenskuverkefni fyrir morgundaginn. Ákvað samt að fara ekki úr náttfötunum. Þegar ég var búin með þau hélt ég áfram að vera á náttfötunum. Aðeins seinna mundi ég að ég átti líka að vera búin með fyrirlestur um Mars (plánetuna, nota bene, ekki súkkulaðið... Berglind) í Nát-133 fyrir morgundaginn ásamt annari stelpu svo ég dreif mig í það, á náttfötunum, og var búin með meirihlutann þegar ég áttaði mig á því að ég átti ekki að vera búin með þetta fyrr en á þriðjudaginn. Þá var klukkan orðin sex svo ég ákvað að fara ekkert í föt fyrr en ég færi á Beach Boys og var ekki vinsæl við kvöldverðarborðið þegar ég mætti í Knattspyrnufélagið Valur bol og stuttbuxum.
Já, Beach Boys. Þeir voru vægast sagt geðveikir. Það kom einn kafli þar sem þeir tóku Disney girl's og Summer in Paradise og duttu aðeins niður en þeir bættu það svo harkalega upp með lokakaflanum sem var rosalegur. Eina sem ég saknaði var Be true to your school en það er eitt af mínum uppáhalds Beach Boys lögum. Hins vegar var það víst aldrei mjög stórt svo ég batt ekki miklar vonir við að það kæmi. Sem það gerði ekki. En öll hin lögin mín, Wouldn't it be nice, God only knows, Fun fun fun, Barbara Ann og Catch a wave komu svo ég var mjög sátt. Fannst samt svolítið fyndið að líta í kring um mig og á fólkið sem var þarna. Í fyrsta lagi var það sem venjulega er stæði ekki stæði heldur sæti sem kannski gefur smá hint um aldurshópinn sem þetta var stílað inná. Maðurinn við hliðina á mér var ekki undir sjötugu og konan fyrir aftan mig talaði stöðugt um það hvað Hljómar væru sætir. Fyrir framan okkur pabba sat svo annar pabbi með son sinn á svipuðum aldri og ég. Þegar var svo búið að reka alla á fætur ákváðum við pabbi að maður sæi Beach Boys bara einu sinni og tókum trylltan dans við öll lögin sem eftir voru. Aðrir voru ekki jafn hressir nema parið sem sat... nei, lá reyndar... í tröppunum við hliðina á okkur og hafði kannski drukkið einum bjór of mikið.
En endalínan (bottom line?) er sú að helgin var góð. Núna fara prófin að nálgast og ég er dauðhrædd við Sögu 103 þar sem ég kíkti á eitthvað sýnispróf og skeit alvarlega á mig andlega. En þetta kemur.
Tónlist:
Elton John - Original Sin
Frank Sinatra - Strangers in the night (þakka það eilífri endurtekningu á þessu lagi í danstímum í skólanum síðustu dagana)
Móment:
Ásrún: "Msn er staður ástarinnar"
Word
Mynd:
Hvað er betra þegar er kominn vetur en að minnast sumarsins?
...fótóskæs